Vísindamönnum til mikillar undrunar fundust leifar af hvítabirni í maga grænlandshákarls. Þetta er talið benda til þess, að ísbirnirnir eigi undir högg að sækja efst í fæðukeðjunni á heimskautasvæðunum.
Fram kemur í blaðinu Berlingske Tidende, að vísindamenn frá norsku heimskautastofnuninni í Tromsø í Noregi hafi fundið leifar af ungum ísbirni í maga hákarls, sem veiddist við Svalbarða. Allt bendir til þess, að hákarlinn hafi ráðist á ísbjörninn og gleypt hann því ekki smádýr, sem venjulega er að finna í hræjum, voru ekki í ísbjarnarhræinu.
Þetta bendir til þess, að grænlandshákarl sé orðinn ógn við hvítabirni. Grænlandshákarl getur orðið allt að 6,5 metra langur og vitað er að hann gleypir fiska og stundum seli.
Vegna ísbráðnunar á heimskautasvæðum er ljóst, að hvítabirnir munu þurfa að synda meira en nú milli ísfleka. Þá aukast líkur á að þeir lendi í átökum við grænlandshákarla.
Vísindamenn hafa veitt 49 hákarla við Svalbarða til að rannsaka fæðuvenjur þeirra.