Bandarískir vísindamenn hafa fundið grafreit frá steinöld í Sahara-eyðimörkinni í Níger, en grafreiturinn er sagður vera sá stærsti sinnar tegundar sem hafi fundist. Tímaritið National Geographic segir að auk steinrunninna mannabeina hafi bein risakrókódíla og risaeðla fundist.
Grafreiturinn, sem nefnist Gobero, er talinn vera 10.000 ára gamall. Hann er staðsettur á svæði í Shara-eyðimörkinni sem kallast Tenere, en það tilheyrir Níger.
Steingervingafræðingurinn Paul Sereno, sem starfar hjá Háskólanum í Chicago, fann grafreitinn þegar hann var að leita að risaeðlubeinum á svæðinu.
Meðal þess sem hefur fundist í eyðimörkinni er beinagrind Sarcosuchus imperator, sem er einn stærsti krókódíll sem sögur fara af. Dýrið var uppi fyrir um 110 milljónum ára síðan.
Serano fann einnig bein risaeðlunnar Nigersaurus, sem var jurtaæta. Risaeðlan var með gríðarstóran kjálka og 500 tennur.
Þá fundust ýmis verkfæri sem höfðu verið grafin með fólkinu sem eitt sinn bjó á svæðinu.