Tæknin drepur framhjáhaldið

mbl.is

Aldrei hefur verið jafn auðvelt fyrir gift fólk að stofna til náinna kynna við aðra en makann. Farsímar, tölvupóstar eða netsíður eins og Facebook og MySpace gera fólki auðveldara fyrir að finna fólk, daðra við það og jafnvel hitta.

En tæknin eykur einnig hættuna á því að upp komist um svikin. Á vef breska dagblaðsins The Independent er gefið í skyn að tækniöldin leiði til þess að framhjáhöld verði brátt liðin tíð. Til að vera virkur þátttakandi í nútímasamfélagi notum við allskyns tæki og tól sem við þekkjum ekki til hlítar og skiljum þar af leiðandi eftir okkur rafræn fótspor hvert sem við förum - líkt og DNA blettum hafi verið dreift yfir rúmföt sýndarveruleikans. Það verður því sífellt erfiðara að eiga sér leyndarmál og því jafnframt erfiðara að svíkja makann.  

Tölur sýna að skilnuðum vegna framhjáhalds í Bretlandi fer ört fækkandi auk þess sem framhjáhöldin verða styttri. Í stað 3ja ára sambanda áður er nú algengt að þau vari aðeins í 6 mánuði.

En það er einnig auðveldara að njósna um makann en áður og hafa tortryggnir úr mörgu að velja. Þar má nefna hugbúnað sem tekur upp allt sem slegið er inn á lyklaborð tölvu, farsímabúnað sem endurheimtir eydd skilaboð. Tækjasett til að greina lífsýni í rúmfatnaði eða nærfötum eru einnig fáanleg og smágerð GPS-tæki til að fela í bílnum eða þá raddgreiningartæki til að greina hvernig tilfinningar makinn ber til þín. Það er því í mörg horn að líta áður en lagt er í framhjáhaldið... og kannski bara best að sleppa því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert