Félagslegir þættir, fremur er erfðafræðilegir, eiga þátt í því að mikill munur er á heilsufari og lífslíkum einstaklinga um allan heim. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Rannsókn WHO stóð yfir í þrjú ár, en hún gekk út á að rannsaka áhrif félagslegra þátt á heilsu fólks.
Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að „félagslegur ójöfnuður drepur fólk unnvörpum.“
Á fréttavef breska ríkisútvarpsins (BBC) kemur fram að drengur sem býr í Calton, sem úthverfi fátækra í Glasgow, mun lifa að meðaltali 28 árum skemur en drengur sem býr í Lenzie, sem er úthverfi auðugra í Glasgow.
Á sama hátt má búast við því að þeir sem búa í Hamstead-hverfinu í London lifi 11 árum lengur en þeir sem búa í St. Pancras, sem er skammt frá.
Þá kemur fram að stúlkur frá Afríkuríkinu Lesotho lifi að meðaltali 42 árum skemur en japanskar stúlkur.
Í Svíþjóð eru líkurnar á því að kona deyi af barnsförum einn á móti 17.400. Í Afganistan er hlutfallið einn á móti átta.
Sérfræðingar WHO komust að því að það sama eigi við í næstum öllum ríkjum heims, að bág kjör og heilsubrestur haldist í hendur. Varað er við því að ef ekki verði gripið í taumana nú muni ójöfnuðurinn aukast ennfrekar í heiminum.
Lífslíkur íslenskra karla er með því hæsta sem gerist í heiminum eða 79 ár. Á Indlandi eru lífslíkurnar 62 ár og 63 ár meðal þeldökkra sem búa í Washington í Bandaríkjunum, svo dæmi séu tekin.