Varað við hættulegum aukaverkunum af Botox

Heilbrigðisyfirvöld í Evrópu vara við því að lyfið Botox, sem notað er til að slétta úr hrukkum, geti haft hættulegar aukaverkanir. Skráð eru 28 tilvik þar sem notendur Botox hafa dáið, en alls hefur Heilsufarsstofnun Evrópu skráð yfir 600 tilfelli af neikvæðum aukaverkunum sem kann að mega rekja til Botox.

Greint verður frá þessu í nýjasta hefti þýska vikuritsins Focus, sem kemur út á morgun. Milljónir manna um allan heim nota Botox sem fegrunarlyf.

Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið varaði við því í febrúar sl. að Botoxnotkun gæti haft hættulegar aukaverkanir, og jafnvel reynst banvæn. Notkun hefur þó ekki verið bönnuð í Bandaríkjunum. Eftirlitið lagði áherslu á að þeir sem látist hefðu af völdum efnisins hefðu ekki notað það sem fegrunarlyf.

Botulíneiturefni, þ. á m. Botox, lama vöðva sem þeim er sprautað í í örsmáum skömmtum, og koma þannig í veg fyrir samdrátt vöðvanna í allt að hálft ár.

Botulín er 40 milljón sinnum öflugra eitur en blásýra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert