Nýjasta útgáfa Microsoft af netvafranum Explorer verður með búnaði sem gerir notendum kleift að skilja ekki eftir neinar upplýsingar um hvaða vefsíður þeir heimsækja. Hefur þessi nýja útgáfa verið kölluð „Explorer með klámstillingu.“
Búnaðinn nefnir Microsoft „InPrivate,“ og kemur hann með Explorer8. Hann felur spor tölvunotandans fyrir öðrum sem nota sömu tölvu.
Er búnaðurinn sagður munu koma illa við Google, einn helsta keppinaut Microsoft, sem reiðir sig á að geta notað sporin eftir tölvunotendur til að bjóða upp á markauglýsingar.
Microsoft segir, að Explorer8 geri notendum kleift að vafra á netinu á öruggari, auðveldari og fljótlegri hátt.