Vísindamenn segja að þeir hafi náð miklum árangri í að loka fyrir efni sem er nauðsynlegt fyrir vöxt krabbameins. Vonast þeir til að hægt verði að þróa lyf sem gera ódrepandi krabbameinsfrumur aftur venjulegar.
Þeir hafa kortlagt byggingu ensímsins telomerasa en það hjálpar til við að halda frumum lifandi þegar það er virkt. Það er fréttavefur BBC sem skýrir frá þessu.
Efnið er að finna í níu af hverjum tíu æxlum.
Rannsóknarlið frá Wistar stofnuninni í Fíladelfíu skrifa um árangur sinn í ritið Nature og segja að árangurinn geti leitt til lyfja sem geti skrúfað fyrir þetta efni.
Allar frumur í líkamanum hafa náttúrlega klukku, litningaendana, sem styttast í hvert sinn sem fruma skiptir sér. Eftir ákveðinn fjölda skiptinga í flestum frumum eru litningaendarnir orðnir ákveðið stuttir og fruman getur ekki skipt sér lengur. Þessi breyting, á sama tíma og frumum fækkar, er orsök annarra breytinga í líkama sem er að eldast.
Sumar frumur, svo sem stofnfrumur, nota efnið telomerasa, til að halda við lengd litningaendanna.
Mörg æxli hafa tekið yfir þessa tækni svo þau geti haldið áfram að vaxa endalaust.
Rannsóknarliðið í Wister hefur nú fundið leið til þess að skrá byggingu virkasta hlutans í efninu.
Fáar hliðarverkanir
Dr Emmanuel Skordalakes sagði að þegar myndin er dregin svona upp í smáatriðum geti það verið til þess að benda á mólikúl sem væru heppileg skotmörk fyrir lyf.
„Telomerasi er kjörið skotmark fyrir efnameðferð því það er virkt í nánast öllum æxlum mannsins en er óvirkt í flestum venjulegum frumum.“
„Það þýðir að lyf sem tæki telomerasa úr sambandi myndi líklega virka gegn öllum tegundum krabbameins og hefði fáar aukaverkanir.“
Rob Newbold, prófessur við Brunel háskóla í Uxbridge, sagði að þetta væri mjög mikilvægur árangur.
„Hugmyndin er að þú getir breytt ódrepanlegum krabbameinsfrumum aftur í venjulegar frumur með þvi að loka fyrir telomerasana á þennan hátt.“
„Fyrst það er búið að uppgötva bygginguna þá mun það sannarlega hjálpa við það að þróa lyf.”