Áhrif reykinga verri á konur en karla

Reuters

Norskir hjartasérfræðingar birtu í dag rannsóknarniðurstöður sem sýna fram á, að reykingar geta haft mun verri áhrif á konur en karla. Konum sem reykja er hættara við hjartaáfalli fyrr á ævinni en konum sem ekki reykja. Þessi aldursmunur er ekki eins mikill hjá körlum.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten.

„Rannsóknin sýnir að það er greinilega munur milli kynjanna á þeim skemmdum sem tóbaksreykingar valda á æðum í og við hjartað,“ sagði dr. Morten Grundtvig, einn höfunda rannsóknarinnar.

Hún var byggð á upplýsingum um 1.784 sem lagðir voru inn á sjúkrahús í Noregi vegna hjartaáfalls á árunum 1998 til 2005.

Konur sem reykja fengu hjartaáfall að meðaltali 14 árum fyrr en þær sem ekki reykja. Meðal karla er sambærilegur munur aðeins sex ár.

Þetta kom í ljós þegar teknir höfðu verið með í reikninginn aðrir áhættuþættir hjartaáfalla, s.s. hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról, sykursýki og fyrri áföll eða hjartaöng.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka