Í Eystrasalti er hafsbotninn víðar lífvana, en á nokkru öðru hafsvæði í heiminum. Umfangsmikill samdráttur í losun fosfórs og nítrats getur vegið þungt í baráttu gegn losun landbúnaðarefna í Eystrasaltið. Þetta kom fram á Eystrasaltsráðstefnunni í Visby í gær.
Mögulegt er enn að bjarga Eystrasaltinu, en það gætu verið síðustu forvöð, sagði Christina Gestrin á ráðstefnunni. Gestrin situr á finnska þinginu og er varaforseti Norðurlandaráðs og fulltrúi í fastanefnd BSPC (Baltic Sea Parliamentary Conference), samkvæmt frétt frá Norðurlandaráði.
Árið 2007 birti BSPC skýrslu um oflosun næringarefna í Eystrasaltið, aðallega fosfór og nítrat. Gestrin greindi frá því hvernig miðaði að framfylgja þeim ábendingum sem koma fram í skýrslunni í löndunum við Eystrasaltið. Eitt af því sem mælt er með er að minnka losun fosfórs frá uppþvotta- og þvottavélum. Með því að minnka fosfórinnihald í þvottaefni og með skilvirkri hreinsun vatns bæði í bæjum og í dreifbýli, má minnka losun fosfórs í sjó um 20 prósent.
„Sautjánda Eystrasaltsráðstefnan er haldin á Gotlandi, einni af perlum Eystrasaltsins. En samkvæmt Sinikka Bohlin sem gegnt hefur formennsku í BSPC, eru snákar í paradís. Niðurstöður rannsóknar sem greint var frá í tímaritinu Science í ágúst staðfesta að Eystrasaltið er það hafsvæði heims þar sem hafsbotninn er að stærstum hluta lífvana," samkvæmt tilkynningu.