Íshella á stærð við Manhattan rifnaði frá strönd Ellesmere-eyju í Norður-Kanada og er á reki, að því er vísindamenn greina frá. Alls hefur um fjórðungur af íshellunum sem verið hafa landfastar við Ellesmere í þúsundir ára nú brotnað.
Íshellur á þessu svæði í Íshafinu hafa minnkað um 212 ferkílómetra í sumar, og hefur minnkun hafíss þar í sumar aðeins einu sinni mælst meiri þau 30 ár sem gervihnattamælingar hafa verið gerðar, sagði í fréttatilkynningu frá Vísindamiðstöð Bandaríkjanna við Háskólann í Alaska í dag.
„Þetta eru óafturkræfar breytingar í núverandi loftslagi, og benda til þess að þær umhverfisaðstæður, sem hefur viðhaldið þessum íshellum í þúsundir ára, séu ekki lengur fyrir hendi,“ sagði Derek Mueller, sérfræðingur í íshellurannsóknum við Trentháskóla í Kanada.
Markham-hellan, sem er 49 ferkílómetrar, losnaði frá Ellesmere-eyju í síðasta mánuði, að sögn Muellers, og er hún nú á reki í Norður-Íshafinu.
Í júlí greindu vísindamenn frá því að stórir hlutar hefðu brotnað af Ward Hunt-íshellunni, sem er sú stærsta við Ellesmere-eyju. Ennfremur hafa alls um 122 ferkílómetrar brotnað af Serson-hellunni.