Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna, að konur hafa almennt tilhneigingu til að velja sér menn sem líkjast föður þeirra. Það á reyndar einnig við um karla, að þeir velja sér almennt konur sem líkjast mæðrum þeirra.
Rannsóknin var gerð við Háskólann í Pécs í Ungverjalandi, og rennir frekari stoðum undir svokallaða kynferðisgreypingu.
Fyrri rannsóknir hafa bent til þess, að við makaval leita konur að mönnum sem eru líkir feðrum þeirra, og á þetta einnig við um ættleiddar konur, sem þykir benda til að þarna ráði reynsla meiru en genin.
Enn frekari vísbending um að svo sé, er að konur sem hafa ekki átt góð samskipti við föður sinn virðast ekki leita að mönnum sem líkjast honum.
Frá þessu greinir BBC.