Úlfar í Vestur-Kanada kjósa heldur að veiða lax, þegar hann er í ám, en að eltast við dádýr og aðra villibráð. Er þetta m.a. niðurstaða vísindamanna sem rannsökuðu atferli úlfahópa í British Columbia. Dádýr eru undirstöðufæða úlfanna vor og sumar, en algengt er að þeir slasi sig við að veiða þau.
Þegar Kyrrahafslaxinn gengur upp í ár á haustin til að hrygna eru úlfarnir hrifnari af honum en dádýrunum. Laxinn er bæði næringarríkari og auðveldara að veiða hann.
Vísindamenn við Háskólann í Viktoríu reiknuðu með að úlfarnir færu því aðeins að veiða og éta lax ef dádýr væru af skornum skammti, en svo reyndist ekki vera raunin.