Helsti loftslagssérfræðingur Sameinuðu þjóðanna mun í ávarpi í Lundúnum á morgun hvetja almenning til að íhuga að minnka kjötneyslu en með því móti sé hægt að draga úr hlýnun andrúmsloftsins.
Rajendra Pachauri, formaður loftslagsnefndar SÞ, hvetur almenning til að hafa að minnsta kosti einn kjötlausan dag í hverri viku. Hann segir við breska útvarpið BBC, að Matvælastofnun SÞ (FAO) áætli að um 18% af öllum gróðurhúsalofttegundum, sem fari út í andrúmsloftið, falli til við kjötframleiðslu.
Til samanburðar er talið, að 13% af gróðurhúsalofttegundunum falli til vegna samgangna.