Bómullarpinnar gera meira ógagn en gagn

Bandarískir læknar hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki eigi að fjarlægja eyrnamerg hjá börnum með bómullarpinnum. Læknarnir segja að það eigi einfaldlega að láta merginn eiga sig. Alls ekki má stinga eyrnapinnum inn í eyrun því það getur skaðað meira en það gerir gagn.

Eyrnamergur er ekki af hinu vonda og ekki á að fjarlægja hann, segir Peter Roland, kennari við læknadeildina í háskólanum í Texas. Þvert á móti hafa hann og kollegar hans við læknadeildina fundið út að eyrnamergurinn gerir gagn. Eyrnamergurinn er náttúruleg leið líkamans til að hreinsa eyrnaganginn.

Tólf milljónir Bandaríkjamanna heimsækja lækni árlega vegna þess að eyrnamergur hefur safnast saman neðst í eyrnagöngunum og skapað óþægindi, til dæmis heyrnarskerðingu. Bómullarpinnar hafa þá ýtt eyrnamergnum lengra inn göngin þar sem hann festist. Aðeins læknar geta fjarlægt merginn þegar þannig er komið. Það er gert með vatnsupplausn hjá lækni, einnig getur læknirinn fjarlægt merginn með sérstökum töngum eða hann lætur sjúklinginn fá eyrnadropa með sér heim.

Fólk á ekki að hafa áhyggjur þótt það sé með eyrnamerg. Eyrun á að þrífa eins og aðra líkamsparta þegar farið er í bað en alls ekki pota bómullarpinnum eða öðrum hlutum inn í eyrun.

Mjög mikilvægt er að pota ekki pinna í eyrun á litlum börnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert