Öreindum skotið af stað

Vísindamenn horfa á tölvuskjái í stofnuninni CERN þar sem tilraunin …
Vísindamenn horfa á tölvuskjái í stofnuninni CERN þar sem tilraunin fer fram. Reuters

Vísindamenn í CERN, evrópsku rannsóknamiðstöðinni í öreindafræði í Genf, hafa skotið fyrstu öreindunum inn í 27 km göng sem liggja að heimsins stærsta öreindahraðli. Tilgangur hans er að komast nær því að skilja gerð alheimsins.

Verkefnastjórinn, Lyn Evans, gaf skipunina um að skjóta öreindunum af stað.

Nokkrir hraðlar koma við sögu. Fyrst línuhraðall sem skýtur eindunum í lítinn hringhraðal, en þaðan fara þær inn í tvo róteindasamhraðla (PS og SPS á korti), þar sem þær ná enn meiri hraða. Að því loknu er þeim skotið inn í sterkeindahraðal, sem hér er til gamans þýddur sterkeindasteðji, sökum þess að þar rekast öreindirnar á. Í hraðlinum er öreindunum safnað saman í sérstakan geymsluhring og þar hringsóla þær nærri ljóshraða. Hér eru í raun tveir hringir og brautarstefnan hvor á móti annarri og staðirnir, eða steðjarnir, þar sem þær rekast á fjórir (ATLAS, ALICE, LHC-b og CMS).

Gagnaöflunin fer fram við árekstrasvæðin, þar er skoðað hvað kemur út úr árekstrum öreindanna, hvaða eindir verði til við árekstrana og hverjir séu eiginleikar þeirra.

Níu þúsund eðlisfræðingar hafa beðið spenntir eftir því að tilraunin hefjist en þeir munu taka þátt í henni.

Sumir efasemdamenn hafa haldið því fram að tilraunin þýði endalok heimsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert