Fyrsta lendingin í Suðurskautsnóttinni

Bandarísk C-17 Globemaster á ísflugbrautinni við McMurdo-stöðina á Suðurskautslandinu.
Bandarísk C-17 Globemaster á ísflugbrautinni við McMurdo-stöðina á Suðurskautslandinu. AP

Bandarísk herflugmaður lenti vél í fyrsta sinn í myrkri á Suðurskautslandinu í gærkvöldi með aðstoð nætursjónauka. Lendingin kann að marka þáttaskil í birgðaflutningum til rannsóknastöðva á Suðurskautinu yfir vetrartímann.

Flugmennirnir höfðu æft sig í nokkra mánuði í að lenda með nætursjónaukanum á 10 km langri flugbraut á ís við McMurdo-rannsóknamiðstöð Bandaríkjamanna.

Flogið var frá Christchurch á Nýja-Sjálandi og tók ferðin til McMurdy um sex klukkustundir. Vélin snéri aftur til Christchurch í morgun.

Við lendinguna var beitt lendingarljósum flugvélarinnar sem endurköstuðust af umferðarkeilum sem mörkuðu flugbrautina. Erfitt er að nota rafmagnsljós til að lýsa upp brautina í þeim kulda sem þarna er nú.

Jim McGann, foringi í bandaríska flughernum, sagði við útvarpið á Nýja-Sjálandi að lendingin markaði tímamót, því hún sýndi fram á að hægt væri að fljúga með birgðir til bandarískra og nýsjálenskra rannsóknastöðva á Suðurskautslandinu árið um kring.

Fram að þessu hefur allt flug þangað legið niðri þá sex mánuði sem ekki sér til sólar á Suðurskautslandinu, eða frá í febrúar og fram í ágúst. McMurdo er á suðurenda Rosseyju, á 77° suðlægrar breiddar.

Lou Sanson, framkvæmdastjóri Suðurskautsrannsóknamiðstöðvar Nýja-Sjálands, segir lendinguna tæknilegt afrek, og breyti mestu um möguleika á sjúkraflutningum árið um kring.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert