Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar segjast hafa í samvinnu við
vísindamenn hjá læknadeild Radboud háskóla í Hollandi fundið tvo erfðabreytileika, sem tengist aukinni áhættu á að fá krabbamein í þvagblöðru.
Grein um rannsóknina birtist á vefsíðu tímaritsins Nature Genetics í dag. Þar kemur fram, að um 20% Evrópubúa séu með tvö afrit af fyrri erfðabreytileikanum og er um 50% meiri hætta á að þeir fái krabbamein í þvagblöðru en annað fólk.
Einstaklingar sem voru með tvö afrit af síðari breytileikanum voru 40% líklegri en aðrir til að fá umrætt krabbamein.
Í rannsókninni voru skoðaðar upplýsingar frá um 40 þúsund einstaklingum á Íslandi, Hollandi og öðrum Evrópuríkjum að því er kemur fram í tilkynningu frá ÍE.
Vefsíða Íslenskrar erfðagreiningar