Leica státar af stærsta ljósopinu

Nýja Noctilux 0,95 linsan frá Leica.
Nýja Noctilux 0,95 linsan frá Leica. AP

Áður en samkeppni myndavélaframleiðenda fór að snúast um fjölda megapixla skiptust þeir á um að framleiða hreyfilinsur með sem mestri breidd („súmmi“). Og þar á undan - um og upp úr miðri síðustu öld - snérist allt um að framleiða linsur með sem stærstu ljósopi.

Framleiðandi hinna goðsagnakenndu Leica-myndavéla, Leica Camera AG í Þýskalandi, hefur nú horfið aftur til þeirra tíma og býður upp á nýja útgáfu af Noctilux-linsu með ljósopi 0,95. Það þýðir, að nýja linsan safnar 11% meira ljósi en fyrirrennari hennar, sem hafði ljósopsgildið 1.

Eftir því sem linsur hafa stærra ljósop því betri myndum skila þær við erfið birtuskilyrði, en 11% aukning telst sáralítið og því er munurinn á nýju linsunni og fyrirrennara hennar líklega að mestu fólginn í orðsporinu.

Reyndar er ekki um að ræða að nýja linsan sé sú bjartasta sem nokkru sinni hefur verið framleidd, því að Canon framleiddi um tíma linsu með ljósopinu 0,95 á sjöunda áratugnum, þegar samkeppnin um stærsta ljósopið var sem hörðust.

En Noctilux 0,95 linsan er mun bjartari en flestar hreyfilinsurnar sem nú eru á flestum stafrænum myndavélum. Þær hafa yfirleitt ekki stærra ljósop en 3,5, sem þýðir að þær safna aðeins um sjö prósentum af því ljósi sem nýja linsan frá Leica getur náð.

Noctilux 0,95 er ekki hreyfilinsa heldur föst 50 mm og ekki með sjálfvirka skerpustillingu (autofocus). Hún er að auki stór og þung, og verðið á henni verður væntanlega um 10.000 dollarar er hún kemur á markaðinn í desember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka