Ungabörn, sem gefið hefur verið paracetamol einu sinni eða oftar í mánuði, eru samkvæmt nýrri rannsókn í þrefalt meiri hættu á að þróa með sér astma, exem og nefholutengd ofnæmi.
Rannsóknin var gerð af Medical Research Institute á Nýja-Sjálandi og birt í breska læknatímaritinu Lancet. Rannsóknin náði til um 200 þúsund barna frá 31 landi.
Rannsóknin sýnir að þau ungabörn sem fengið höfðu paracetamol á fyrstu æviárum sínum eru í 50% meiri áhættu um að þróa með sér astma þegar þau nálgast 6-7 ára aldurinn. Líkurnar aukast í réttu hlutfalli við neyslu verkjalyfsins.
Paracetamol er algengast verkjalyfið sem ungabörnum er gefið til þess að slá á hita.
Að mati Richard Beasley, hjá Medical Institute á Nýja sjálandi, eiga foreldrar ekki að hætta að gefa börnum sínum paracetamol þegar þörf er á þar sem lyfið sé enn sem komið er besta lyfið til þess að slá á hita hjá börnum. „Hins vegar ætti aðeins að nota lyfið ef hitinn hjá barninu fer yfir 38,5 gráður og forðast ætti að nota lyfið að staðaldri,“ segir Beasley.
Menn hafa löngum haft grun um að ákveðið samhengi væri milli astma og neyslu paracetamols því á sama tíma og neysla á verkjalyfinu hefur aukist í heiminum á sl. 50 árum hefur astmatilfellum einnig fjölgað.
Þó tengslin milli neyslu paracetamols og astma hefur verið verið til skoðunar í læknisfræðilegum rannsóknum áður er rannsókn Medical Institute á Nýja-Sjálandi sú umfangsmesta enn sem komið er.