Sjálfbærar samgöngur í sjónmáli

Orkugjafar framtíðar í umferðinni og farartæki knúin þeim eru efst á baugi samgönguráðstefnunnar Driving Sustainability '08 sem sett var á Hilton Reykjavík Nordica-hótelinu í gær. Ráðstefnan er helsti viðburður Samgönguviku Reykjavíkurborgar og skipulögð af Framtíðarorku ehf. Gestgjafar eru Reykjavíkurborg, Landsbankinn og Icelandair. Fyrirlesarar eru margir af fremstu sérfræðingum á sviði nýrrar tækni á samgöngusviðinu og frumkvöðlar í sjálfbærri orkunýtingu. Þá eru sýnd vistvæn ökutæki af ýmsu tagi á ráðstefnunni.

Dr. Bertrand Piccard hélt innblásið erindi um að finna nýjar leiðir að lausnum á aðsteðjandi vanda. Piccard öðlaðist heimsfrægð þegar hann flaug fyrstur manna í kringum jörðina í loftbelg. Hann sagðist hafa lofað sér því þá að vera ekki háður eldsneyti í næstu hnattferð. Nú stjórnar hann verkefni um hnattflug á flugvél knúinni sólarorku sem getur verið á lofti jafnt nótt sem dag (www.solarimpulse.com). Stefnt er að tilraunaflugi á frumgerð flugvélarinnar á næsta ári og flugi kringum jörðina einu eða tveimur árum síðar.

Piccard sagði að mannkynið mundi ekki komast af á 21. öld nema það tæki upp nýja endurnýjanlega orkugjafa. Það yrði hvorki einfalt né auðvelt og því fylgi bæði áhætta og áskorun.

Piet Steel, aðstoðarforstjóri evrópskra málefna hjá Toyota-bílaframleiðandanum í Evrópu, gerði m.a. grein fyrir því markmiði Toyota að smíða hinn „fullkomna umhverfisbíl“ og ýmsum leiðum að því marki. Blendings- eða tvinnbíllinn Toyota Prius hefur notið mikillar velgengni og eins blendingsbílar frá Lexus. Steel taldi að blendingstæknin væri besta tæknin í umferðinni nú. Sala Prius hefur vaxið jafnt og þétt og stefnir Toyota að því að selja milljón slíkra bíla á ári snemma á næsta áratug þessarar aldar. Á næsta ári er væntanleg ný kynslóð Prius og tengiltvinnútgáfa, sem hægt verður að hlaða með því að stinga bílnum í samband við rafmagn, er væntanleg. Þá er einnig í undirbúningi að búa bílana fullkomnari rafhlöðum en nú eru í þeim.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka