Sálfræðirannsókn sem birt var nýlega í bandaríska tímaritinu Journal of Applied Psychology gefur til kynna að karlmenn sem viðhalda gamaldags viðhorfum um hlutverk kynjanna séu hærra launaðir en jafnréttissinnaðir. Að meðaltali mældist launamunurinn um 8.500 dollarar, þ.e. um 761 þúsund krónur á ári.
Rannsóknin, sem var unnin við Flórídaháskóla, tók til 12.686 manna og kvenna á aldrinum 14-22 ára og var unnin í nánast þrjá áratugi, frá 1979 - 2005. Þáttakendur voru spurðir um viðhorf þeirra til kvenna á vinnumarkaði, hvort hlutverk þeirra væri innan heimilisins og hvort atvinnuþátttaka þeirra væri líkleg til að leiða af sér vanrækslu barna og unglinga.
Niðurstöður sýndu að fleiri karlmenn voru á þeirri skoðun en konur, þótt munurinn þar á milli minnkaði verulega með árunum. Þegar spurt var um laun þátttakenda kom hinsvegar í ljós að þeir karlmenn sem höfðu íhaldsamari viðhorf í jafnréttismálum höfðu marktæk hærri laun en hinir. Hvað konur varðaði snérist staðan hinsvegar við, þær konur sem héldu jafnréttissjónarmiðum á lofti voru hærra launaðar en þær sem voru hlynntar hefðbundnum kynjahlutverkum.
Þónokkrar mögulega skýringar voru gefnar fyrir þessum mun þótt ástæður að baki honum hafi ekki verið rannsakaðar. Ein kenningin er sú að vinnuveitendur séu mögulega líklegri til að veita þeim karlmönnum stöðuhækkun sem þeir vissu að væru eina fyrirvinna heimilisins, vitandi að þörfin væri meiri. Önnur tillaga er sú að þeir karlmenn sem hafi gamaldags hugmyndir um kynjahlutverk hafi einnig önnur gildi almennt en jafnréttissinnaðari karlmenn og leggi meiri áherslu á að komast yfir völd og peninga.