Breskur þvagfæraskurðlæknir hefur lýst yfir áhyggjum a vaxandi vinsældum lýtaaðgerða á kynfærum meðal kvenna. Linda Cardozo, sem starfar hjá King's College spítalanum í London, segir litla fræðslu að finna um öryggi og afleiðingar slíkra aðgerða, sem margar eru gerðar með það í huga að gera kynfærin meira aðlaðandi.
Cardozo vakti athygli á málinu á læknaráðstefnu í Montreal í Kanada um helgina. Hún segir algengustu aðgerðirnar snúast um að minnka ytri skapabarma og séu í sumum tilfellum framkvæmdar til að draga úr líkamlegum óþægindum vegna lögunar þeirra, en oftar en ekki hafi konur þó einungis fagurfræðina í huga.
„Konur vilja líkja eftir súpermódelum og það er tíska í þessu eins og öðru. En konur ættu að vita það að öllum skurðaðgerðum fylgir áhætta. Flestar þessara aðgerða eru gerðar á einkareknum stofum að það er ekkert eftirlit haft með þeim,“ sagði hún í viðtali við BBC News.
Ekki er vitað með vissu hversu margar konur fara árlega í kynfæralýtaaðgerð í Bretlandi, en talið er að tíðni þeirra fari vaxandi. Skurðaðgerð á skapabörmum kostar u.þ.b. 2.000 pund, tæp 350.000 krónur, á einkarekinni stofu. Eins óska konur eftir að fá leggangaþrengingu með skurðaðger, til að þrengja leggöng eftir fæðingar, og jafnvel að n.k. meyjarhaft verði endurgert.
Cardozo segir að þótt hugsanlegt sé að aðgerðirnar skili árangri útlitslega sé með öllu óvíst hvort þær leysi þær sálfræðiflækjur eða kynlíferðisleg vandamál sem liggi að baki. Hún segir ennfremur ósannað hvort leggangaþrenging með skurðaðgerð skili nokkuð meiri árangri en einfaldar grindarbotnsæfingar.
Cardozo kallaði á ráðstefnunni eftir því að ítarlegar rannsóknir verði gerðar til að læknar geti ráðlagt konum sem leita til þeirra af einhverri vissu. Í millitíðinni hvatti hún skurðlækna til að gæta varúðar og grípa ekki til skurðaðgerða á kynfærum nema í sérstökum tilfellum.
„Lýtaaðgerðir á kynfærum vekja upp margar siðferðislegar spurningar,“ sagði Gardozo. „Konur borga háar fjárhæðir fyrir aðgerðir sem geta hugsanlega bætt ytra úlit kynfæra þeirra en það eru engar sannanir fyrir því að þær bæti virknina.“