Fóru víkingar fyrr til Ameríku en haldið var?

Víkingaskipið Íslendingur
Víkingaskipið Íslendingur Jim Smart

Fornleifafræðingur, sem fundið hefur áður óþekkt ummerki eftir víkinga í Kanada, telur að víkingar hafi ferðast fyrr til Norður-Ameríku en hingað til hefur verið talið. Sé það rétt þá þurfi að endurskrifa söguna um landafundi víkinga í Norður-Ameríku. Frá þessu er greint í danska dagblaðinu Berlingske Tidende. 

Samkvæmt sögubókunum var það Leifur heppni Eiríksson og hans fylgdarmenn sem fyrstir Evrópubúa sigldu til Norður-Ameríku í kringum árið 1000. Þá fundu þeir leið til Hellulands, sem staðsett er í norðausturhluta Kanada og í dag er nefnt Baffin eyja. Síðar sigldi hann mót suðri til Nýfundnalands, þar sem L'anse aux Meadows er nú eina þekkti vitnisburður þess að víkingar hafi numið land í Norður-Ameríku. 

Rottuhár og garn meðal nýrra rannsóknargagna

Fornleifauppgröftur og rannsóknir fornleifafræðingsins Patriciu Sutherland, frá kanadíska þjóðmenningarsafninu, á híbýlum manna þar geta dregið upp nýja mynd af víkingunum. Þannig virðist ýmislegt benda til þess að víkingar hafi komið til Hellulands allt að 75-100 árum áður en Leifur kom þangað og byggðu ef til vill hús og komu upp verslunarkjörnum á nokkrum stöðum á Baffin eyju.

Að sögn Sutherland hafa fundist leifar af rottuhárum á nokkrum íverustaðanna, en rottur eru aðflutt dýr til Norður-Ameríku og ekki hluti af upprunalegri dýraflóru heimsálfunnar.  Auk þessa hafa fundist leifar af garni unnar úr hári héra frá Norðurhöfum, en skrælingar, eins og víkingar nefndu innfædda í Norður-Ameríku, kunnu ekki að spinna garn og því hljóti garnið að vera frá víkingum komið. Að lokum má nefna að Sutherland og samstarfsfélagar hennar hafa fundið leifar af hverfisteini sem notaður var til að brýna vopn úr málum, en innfæddir þekktu ekki til eða notuðu málma.

„Við erum enn að reyna að aldursgreina þessa hluti sem fundist hafa, en þeir virðast óhjákvæmilega gamlir. Við verðum þó að hafa með í reikninginn að tímasetningin getur verið mjög ófullkomin,“  segir Sutherland, en verið er að kolefnisgreina rottuhárin og garnleifarnar.

Til marks um meiri tengsl Norðurlandabúa við Norður-Ameríku

Íslendingasögurnar greina frá því að víkingar hafi þegar árið 985 ferðast til Norður-Ameríku. Þá rak skip Bjarna Herjólfssonar af leið við Grænlandsstrendur og fór það langt til vesturs að menn greindu þar land. Í Grænlendingasögu er frá því greint að ríflega 15 árum síðar hafi Leifur siglt frá Grænlandi til Norður-Ameríku, fyrst til Hellulands, síðan Markland og loks Vínlands eins og víkingar nefndu Norður-Ameríku. 

Georg Nyegaard, hjá Þjóðminjasafni Grænlands, er ekki undrandi á þeim vísbendingum sem rannsóknir Sutherlands hafa leitt í ljós. „Allt bendir til þess að Norðurlandabúar hafi haft meiri tengsl við Norður-Ameríku en áður hafði verið talið. Þeir hafa m.a. sótt til Ameríku timbur og skinn,“ segir Nyegaard og bætir við: „En vera þeirra á Baffin eyju hlýtur óhjákvæmilega að hafa verið stutt. Ef til vill stöldruðu þeir aðeins við á sumrin. Því Baffin eyja er ekki sérlega gestrisinn á veturna þar sem kuldaboli er þá allsráðandi. Þar er miklu kaldara á veturna en hér á Grænlandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert