Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að ný störf sem byggist á þróun umhverfisvænna orkugjafa muni skipta milljónum á næstu áratugum.
Yfir ein milljón manna vinni þegar að framleiðslu lífræns eldsneytis en skv. skýrslunni gæti sú tala verið komin upp í 12 milljónir árið 2030. Þetta kemur fram á vef BBC.
„Grænu störfin“ muni fyrst og fremst grundvallast á þróuninni úr olíu og gasi yfir í vind, sólar og jarðhitaorku. Ný störf gætu einnig orðið til í kringum endurvinnslu og gerð umhverfisvænna ökutækja. Skýrslan nefnist „Green Jobs: Towards Decent Work in a Sustaniable, Low-Carbon World“ og var unnin af umhverfisáætlun SÞ (Unep).
Achim Steiner, framkvæmdastjóri Unep, sagði að ef heimsbyggðin skipti ekki yfir í umhverfisvæna orkugjafa myndi hún missa af góðu tækifæri til sköpunar nýrra starfa. Þegar til lengri tíma væri litið myndi slík breyting stuðla að bættum efnahag þjóða.