Mikilvægt er fyrir drengi að hafa karlkennara samkvæmt niðurstöðu nýrrar breskrar könnunar. Samkvæmt könnuninni sem unnin var af Training and Development Agency (TDA) telja 35% karla það hafa aukið metnað sinn í skóla að hafa haft karlkennara. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Átta hundruð karlar tóku þátt í könnuninni og sagði meirihluti þeirra að þeim hafi þótt samskipti við karlkennara auðveldari en samskipti við kvenkennara.