Evrópubúar mega gera ráð fyrir stórauknum rigningum í norðurhluta álfunnar og þurrkum á Miðjarðarhafssvæðinu. Þetta segir í nýútkominni skýrslu EEA, Umhverfisstofnunar Evrópu, þar sem fram kemur að hlýnun hefur verið meiri í Evrópu frá iðnvæðingunni en að meðaltali í heiminum.
„Mörg svæði Evrópu eru viðkvæm fyrir áhrifum loftslagsbreytinga,“ segir Jacqueline McGlade, framkvæmdastjóri EEA. „Aðgerðir til að takast á við breytingarnar eru komnar skammt á veg. Slíkar aðgerðir þarf að stórefla.“
Breytingarnar dreifast samkvæmt skýrsluhöfundum misjafnt um álfuna og hafa ólík áhrif. „Breytingar á úrkomu hafa þegar aukið muninn á blautum norðurhluta og þurrum suðurhluta álfunnar,“ segir í skýrslunni.
Veirur sem berast á milli fólks með moskítóflugum og sjúkdómar sem smitast með neysluvatni yrðu algengari í hlýrri Evrópu.
„Afleiðingarnar fara mjög eftir því hvernig fólk ber sig, auk gæða heilsugæslunnar og getu hennar til að greina og bregðast við í tæka tíð,“ segir í skýrslunni.
Bent er á að heilbrigðisvandamála af völdum hlýnunar sé þegar farið að gæta. Til dæmis hafi um 70.000 manns látist af völdum hitabylgju sumarið 2003, og útlit sé fyrir að tíðni hitabylgna muni aukast.