Evrópa hlýnar hraðar en meðaltal

Evrópubúar mega gera ráð fyrir stórauknum rigningum í norðurhluta álfunnar og þurrkum á Miðjarðarhafssvæðinu. Þetta segir í nýútkominni skýrslu EEA, Umhverfisstofnunar Evrópu, þar sem fram kemur að hlýnun hefur verið meiri í Evrópu frá iðnvæðingunni en að meðaltali í heiminum.

„Mörg svæði Evrópu eru viðkvæm fyrir áhrifum loftslagsbreytinga,“ segir Jacqueline McGlade, framkvæmdastjóri EEA. „Aðgerðir til að takast á við breytingarnar eru komnar skammt á veg. Slíkar aðgerðir þarf að stórefla.“

Einnar gráðu hlýnun

Benda skýrsluhöfundar á að meðalhiti jarðarinnar hafi hækkað um 0,8°C frá þeim hita sem var fyrir iðnbyltingu. Á sama tíma hafi hækkunin í Evrópu numið 1,2°C. Jafnframt bendi reiknilíkön til þess að hlýnun verði enn meiri í framtíðinni. Evrópa hlýni um 1 til 5,5°C fyrir lok þessarar aldar, á meðan búist er við að heimurinn hlýni um 1,8 til 4°C.

Breytingarnar dreifast samkvæmt skýrsluhöfundum misjafnt um álfuna og hafa ólík áhrif. „Breytingar á úrkomu hafa þegar aukið muninn á blautum norðurhluta og þurrum suðurhluta álfunnar,“ segir í skýrslunni.

Heilbrigðisvandamál fylgja

Almenn hlýnun hefur í för með sér að kjörlendi ýmissa dýrategunda þokast norður á bóginn. Þannig flytjist fiskistofnar, landdýr, plöntur, fuglar og skordýr sífellt norðar – en einnig ýmsir vágestir.

Veirur sem berast á milli fólks með moskítóflugum og sjúkdómar sem smitast með neysluvatni yrðu algengari í hlýrri Evrópu.

„Afleiðingarnar fara mjög eftir því hvernig fólk ber sig, auk gæða heilsugæslunnar og getu hennar til að greina og bregðast við í tæka tíð,“ segir í skýrslunni.

Bent er á að heilbrigðisvandamála af völdum hlýnunar sé þegar farið að gæta. Til dæmis hafi um 70.000 manns látist af völdum hitabylgju sumarið 2003, og útlit sé fyrir að tíðni hitabylgna muni aukast.

Ekki eintómar hrakspár

Í skýrslunni er bent á að afleiðingar loftslagsbreytinga í Evrópu séu ekki allar neikvæðar. Mildara veðurfar á Norðurlöndum muni til að mynda lengja þann tíma sem bændur hafa til ræktunar. Þá vaxi skógur hraðar í flestum hlutum álfunnar, sem stemmi að nokkru leyti stigu við aukningu koltvísýrings í andrúmslofti.
Í hnotskurn
Í norðvesturhluta Evrópu er gert ráð fyrir töluverðri úrkomuaukningu, með aukinni flóðahættu. Við Miðjarðarhafið er talið að þurrkar verði tíðari, sem geti valdið uppskerubresti og skógareldum. Miðhluti Evrópu má eiga von á aukinni árstíðasveiflu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert