Erfðafræðileg greining á lífsýni sem kom nýlega í leitirnar í Lýðveldinu Kongó bendir til að vírusinn sem veldur alnæmi hafi byrjað að berast á milli manna fyrir rúmri öld, eða þrjátíu árum fyrr en álitið hefur verið fram að þessu.
Michael Worobey, lífræðingur sem sérhæfir sig í þróun lífvera við háskólann í Arizona í Tucson, fór fyrir rannsókninni, en 27 ár eru nú liðin frá því veirunnar varð fyrst vart í Bandaríkjunum, að því er fram kom í fréttaskýringu á vef dagblaðsins Los Angeles Times í gær.
Sagði þar að elsta beinharða sönnunin um vírusinn hefði komið úr blóðsýni manns árið 1959 í því sem þá var belgíska Kongó.
Rannsóknin sem hér um ræðir og birt var í vísindaritinu Nature á miðvikudag byggðist á samanburði á lífsýni úr konu sem lést árið 1960 í belgísku Kongó og nýlegum sýnum, með hliðsjón af núverandi þekkingu á þróun veirunnar, sem sögð er þróast hratt manna á milli.
Draga vísindamennirnir þá almennu ályktun að veiran hafi skotið rótum við borgarmyndun í gömlu nýlendunum í Afríku, þar sem vændi og önnur áhættuhegðun hafi ýtt undir útbreiðslu hennar.
Vitnar Los Angeles Times til þeirra orða Jims Moores, mannfræðings við Kaliforníuháskóla í San Diego, að í ljósi hrikalegrar meðferðar nýlenduherranna á Afríkumönnum, og hárrar dánartíðni í þeirra röðum, ætti ekki að koma á óvart að mannfall vegna veirunnar hafi ekki vakið almenna athygli.
Þótt baráttan gegn eyðni þyki víða hafa borið árangur er sjúkdómurinn enn útbreiddur meðal ýmissa samfélagshópa, svo sem á meðal samkynhneigðra blökkumanna í Bandaríkjunum.