Nýtt dulkóðunarkerfi, sem er sagt vera algerlega öruggt, var reynt í fyrsta sinn í Vín í Austurríki í gær. Tókst tilraunin mjög vel að sögn vísindamanna hjá Evrópustofnuninni SECOQC en skammstöfunin stendur fyrir Örugg fjarskipti á grundvelli skammtafræðilegrar dulkóðunar.
Í yfirlýsingu frá SECOQC segir, að líklegir notendur séu stjórnarstofnanir, fjármálastofnanir og fyrirtæki með mörg útibú og nú hilli undir, að þau geti dulkóðað fjarskipti sín í milli með öruggum hætti. Búist er við, að kerfið verði tilbúið innan þriggja ára.
Tæknin byggist á því, að sendur er straumur ljóseinda, fótóna, og segja höfundarnir, að reyni einhver óviðkomandi að komast inn, þá verði þess vart á stundinni.
Skammtafræðileg dulkóðun hefur verið notuð til að flytja upplýsingar beint milli tveggja staða en ekki sem hluti af stóru neti. Evrópskir vísindamenn hafa unnið að smíði kerfisins í hálft fimmta ár og naut starfið blessunar og stuðnings eins af feðrum skammtafræðilegrar eðlisfræði, Antons Zeilingers hjá Vínarháskóla.