Rússnesku Sojus-geimfari var í morgun skotið á loft frá Kasakstan og er ferðinni heitið til alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Um borð í geimfarinu eru einn Rússi og tveir Bandaríkjamenn, þar á meðal bandaríski milljarðamæringurinn Richard Garriott, sem keypti sér far fyrir 30 milljónir dala, jafnvirði 3,3 milljarða króna.
„Ég er í sjöunda himni," sagði Owen Garriott, faðir Richards, þegar hann horfði á eftir geimfarinu en Owen starfaði sem geimfari á sínum tíma og fór í geimferð.
Sojus-farið á að tengjast geimstöðinni á þriðjudag og Garriott mun dvelja þar í 10 daga og gera tilraunir og taka myndir af jörðinni. Hann mun síðan snúa aftur jarðar ásamt Rússanum Jurí Volkov, en faðir hans var einnig geimfari á sínum tíma.
Garriott er Texasbúi, sem auðgaðist á því að hanna tölvuleiki. Hann dreymdi ungur um að verða geimfari en slæm sjón gerði það að verkum að hann komst ekki að hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA í þjálfun.