Japanska fyrirtækið Sony hefur stöðvað útgáfu tölvuleiks sem beðið var með mikilli eftirvæntingu. Í ljós hefur komið að í bakgrunnstónlist sem notuð er í leiknum LittleBigPlanet er að finna tvær setningar úr Kóraninum og vill fyrirtækið ekki eiga á hættu að móðga múslíma.
Á fréttavef BBC kemur fram að Sony biðst afsökunar hafi einhverjum mislíkað og segir að ný útgáfa af leiknum verði komin á markað í næsta mánuði.
Reiknað er með að leikurinn verði mjög vinsæll meðal þeirra sem eiga Playstation 3 leikjatölvur.
Fyrir tæplega tveimur árum þurfti Sony að biðja ensku biskupakirkjuna afsökunar á að dómkirkjan í Manchester hafi verið notuð sem bakgrunnur í mjög blóðugum skotleik en sá leikur var ekki tekin úr umferð.
LittleBigPlanet er lýst sem svo að hann sé leikur sem gengur út á að hanna sína eigin tölvuleiki. Fólk geti síðan skipst á heimasmíðuðum leikjum á netinu.