Eitthvert verðmætasta og umfangsmesta safn fornra handrita sem um getur er varðveitt í St. Gallen í Sviss, í Stiftsbibliothek-safninu. Safnið er í fornu klaustri, í glæsilega skreyttum sölum. Senn verður hægt að skoða handritin á netinu, fyrir tilstuðlan rausnarlegs styrks frá bandarísku Andrew W. Mellon-stofnuninni.
Um aldir hafa fræðimenn sótt safnið heim, til að rannsaka handritin, sem eru mörg hver frá því fyrir árið 1.000. Samkvæmt The New York Times eru m.a. í safninu fornir ástarsöngvar, drykkjusöngvar og uppdrættir að klaustrum frá níundu öld. Talið er að bókasafnið hafi verið stofnað á þeim tíma.
Sú hugmynd að skanna öll handritin inn, og sérstaklega þau 350 sem voru rituð fyrir árið 1.000, fæddist eftir að flóð skaðaði ómetanleg listaverk í Dresden árið 2002. Síðan var umfang verksins aukið og um 7.000 miðaldahandrit skönnuð inn.
Fræðimenn fagna verkefninu mjög en þeir geta nú rannsakað handritin hvar sem þeir eru staddir.