Bresk yfirvöld áforma að leggja allt að 100 milljónir Sterlingspunda, jafnvirði rúmlega 18 milljarða íslenskra króna í tilraunaverkefni með rafmagnsbíla. Tilgangurinn er að auka notkun rafmagnsbíla til muna í Bretlandi.
Hugmyndin er að tilraunaverkefnið fari fram í þremur breskum borgum. Aðeins lítið brot af þeim 26 milljónum bíla sem eru í Bretlandi eru rafmagnsbílar eða 0,01%. Þeir rafmagnsbílar sem nú fást komast tæplega 70 kílómetra á hverri hleðslu og verðið þykir hátt samanborið við bensín- og dísilbíla eða í kringum 2 milljónir króna.
Bresk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80% fyrir árið 2050.
Ætlunin er að velja í tilraunaverkefnið þá bílaframleiðendur sem hvað lengst eru komnir í þróun grænnar tækni en stærstu bílaframleiðendur heims hafa eytt milljörðum króna í þróun. Enginn þeirra selur þó rafmagnsbíla í neinu magni í Bretlandi. Styrkirnir eiga því að laða framleiðendur til að flytja slíka starfsemi til Bretlands.
Umhverfisverndarsinnar segja það fáránlegt að styrkja þurfi bílaframleiðendur til að draga úr mengun bíla sinna. „Þeir lofuðu fyrir áratug eða svo að draga stórkostlega úr útblæstri koltvísýrings bíla. Þeir hafa svikið það loforð. Svo ætla bresk stjórnvöld að greiða bílaframleiðendum sérstaklega fyrir það sem hefði í raun átt að þvinga fram með reglugerð fyrir löngu. Stjórnvöld grípa til styrkja þegar þau hafa ekki þor til að fara gegn sterkum öflum, líkt og bílaiðnaðurinn er,“ segir George Monbiot, umhverfisverndarsinni og kallar tilraunaverkefnið mútur breskra stjórnvalda til bílaframleiðenda.
Paul Everitt, hjá bílgreinasambandi Breta segir þetta mikilvægt skref hjá stjórnvöldum. „Þetta hefur jákvæð áhrif á efnahag landsins og ímynd okkar grænkar til muna.“