Breska matvælastofnunin (FSA) ráðleggur verðandi mæðrum að draga úr allri neyslu koffeins. Stofnunin leggur til að þær drekki ekki meira en samsvarar tveimur kaffibollum eða fjórum bollum af tei á dag.
Stofnunin ráðleggur nú þunguðum konum að innbyrða ekki meira en sem nemur 200 mg af koffeini á dag. Þetta er þriðjungslækkun frá því sem var, en áður hafði stofnunin miðað við 300 mg.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að þetta sé gert í kjölfar niðurstaðna vísindamanna við háskólana í Leicester og Leeds. Þeir komust að því að það væru tengsl á milli koffeindrykkju og fæðingarþyngdar barna, þ.e. barna sem eru mjög létt við fæðingu.
Rannsóknin verður birt í læknaritinu British Medical Journal í þessari viku.
Börn sem eru mjög létt við fæðingu eru líklegri en önnur börn að glíma við ýmis heilsufarsvandamál, s.s. hjartasjúkdóma og sykursýki, síðar meir.
Fram kemur á fréttavef BBC að þetta þýði að barnshafandi konur eigi í mesta lagi að drekka tvo venjulega kaffibolla á dag.