Tengsl milli sjónvarpsáhorfs og þungana

Þættirnir Beðmál í borginni eru teknir sem dæmi um sjónvarpsefni …
Þættirnir Beðmál í borginni eru teknir sem dæmi um sjónvarpsefni þar sem mikil áhersla er lögð á kynlíf. Reuters

Unglingsstúlkur sem horfa mikið á sjónvarpsþætti þar sem áherslan á kynlíf er mikil eru tvöfalt líklegri en aðrar stúlkur að verða þungaðar. Þetta eru niðurstöður nýrrar bandarískrar rannsóknar.

Unglingspiltar sem horfa á svipaða þætti, t.d. Vini og Beðmál í borginni, eru einnig sagðir vera líklegri til að barna stúlkur. Þetta kemur fram í bandaríska læknaritinu Pediatrics.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að höfundar rannsóknarinnar haldi því fram að ef unglingar horfi minna á sjónvarpsefni þar sem kynlíf sé í fyrirrúmi megi draga úr þungunum meðal unglinga.

Þá hafa sérfræðingar hvatt foreldra til að ræða opinskátt um kynlíf við börn sín.

Anita Chandra, sem er höfundur rannsóknarinnar, segir að sjónvarp hafi mjög mótandi áhrif á unglinga hvað varðar hugmyndir þeirra um kynlíf. Hún segir það vera vandamál að sumir þessara þátta fjalli ekkert um þá áhættu og þá ábyrgð sem fylgi því að stunda kynlíf.

Alls tóku 2.000 unglingar á aldrinum 12 til 17 ára þátt í rannsókninni. Þeir voru fengnir þrisvar sinnum í viðtöl á árunum 2001 og 2004.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert