Læknar í Þýskalandi segja, að sjúklingur virðist hafa fengið lækningu af alnæmi eftir að hann gekkst undir beinmergskipti og fékk merg frá gjafara, sem hefur erfðafræðilegt mótstöðuafl gegn sjúkdómnum.
Á fréttavef BBC er haft eftir læknum, að maðurinn, sem einnig þjáðist af hvítblæði, sýni nú engin merki um þessa sjúkdóma tveimur árum eftir að hann gekkst undir aðgerðina.
Þessar niðurstöður eru sagðar muni ýta enn frekar undir áhuga á erfðafræðilegi meðferð gegn alnæmi en til þessa hefur ekki tekist að finna lækningu við þeim sjúkdómi.
Sjúklingurinn er 42 ára gamall Bandaríkjamaður, búsettur í Berlín. Hann smitaðist af HIV-veirunni, sem veldur alnæmi, fyrir um áratug og hafði einnig fengið hvítblæði.
Læknar í Charite sjúkrahúsinu í Berlín segja, að eftir beinmergskiptin hafi rannsóknir á beinmerg mannsins, blóði og líffærum leitt í ljós að báðir þessir sjúkdómar virðast horfnir.
Um það bil einn af hverjum 1000 Evrópu- og Bandaríkjamönnum, hefur arfgengan erfðabreytileika sem gerir það að verkum, að HIV veiran nær ekki að tengja sig við frumur.