Ómannað indverskt geimfar hefur komið kanna fyrir á yfirborði tunglsins í geimferð sem Indverjar telja mikilvægan þátt í þeirri viðleitni þeirra að ná forystu í geimferðakapphlaupi Asíuríkja.
Kanninn er 30 kíló, málaður í indversku fánalitunum. Hann á meðal annars að rannsaka samsetningu lofthjúpsins.
Indverska geimfarinu Chandrayaan 1 var skotið á loft í október. Geimfarið á að vera á braut um tunglið í tvö ár og rannsaka m.a. efnasamsetningu og steindir yfirborðsins.
Indverjar vonast til þess að verða á undan Kínverjum að senda mannað geimfar til tunglsins og ná þar með forystu í geimferðakapphlaupi Asíurisanna tveggja. Indverjar viðurkenna að þeir hafi dregist aftur úr í geimferðakapphlaupinu við Kínverja sem skutu fyrsta mannaða geimfari sínu á loft árið 2003 og sendu ómannað geimfar að tunglinu fyrir ári. Indverjar ætla að senda annað ómannað geimfar (lendingarfar og geimvagn) til tunglsins árið 2011. Þeir stefna að því að senda fyrsta Indverjann í geiminn árið 2014 og skjóta mönnuðu geimfari til tunglsins ekki síðar en árið 2020 – fjórum árum á undan Kínverjum.