Elsta kjarnafjölskyldan myrt

Rannsóknir hafa leitt í ljós að elsta kjarnafjölskyldan , sem fundist hefur, var  myrt í Þýskalandi fyrir u.þ.b. 4.600 árum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Erfðaefnisrannsóknir hafa staðfesta að um föður, móður og tvö börn þeirra var að ræða. Líkamsleifar fjölskyldunnar fundust í annarri af tveimur gröfum sem eignaðar eru fólki sem tilheyrði svokallaðri Corded Ware menningu. Í hinni gröfinni voru líkamsleifar níu einstaklinga, sex barna á aldrinum sex mánaða til níu ára og þriggja fullorðna. Rannsóknir hafa sýnt að þrjú þeirra barna voru einnig náskyld.  

 Í grein sem birt er í fagtímaritinu PNAS er greint frá því að ummerki um beinbrot bendi til þess að á fólkið hafi verið ráðist og það drepið með ofbeldisfullum hætti. 

„Þau voru án efa myrt. Það eru stór göt á höfðum þeirra og fingur og hendur eru brotnar,” segir Dr Wolfgang Haak, forstöðumaður áströlsku stofnunarinnar The Australian Centre for Ancient DNA.

Haak segir engan vafa leika á því að börnin, sem voru stúlka og drengur, hafi verið grafin í örmum foreldtra sinna.  „Við erum alveg viss um það og byggjum það á líffræðilegum rannsóknum en ekki bara tilgátum og vangaveltum," segir hann.

Þá segir hann það hvernig fólki var lagt til í gröfunum benda til þess að það hafi verið jarðað af ástvinum sínum. „Það er hægt að finna merki um samúð með þeim. Þau eru lögð til af mannlegri natni sem gefur til kynna að einhverjum hafi þótt vænt um þau. Við verðum eftir sem áður að fara varlega þegar kemur að mati tilfinninga í fornleifum. Við megum ekki ganga út frá nútímagildismati. Við vitum ekki hversu erfitt mannlífið var á þessum tíma eða hvort það var yfir höfuð svigrúm til væntumþykju,” segir hann. 

Greining á leifunum þykir einnig benda til þess að konur hafi verið giftar út úr eigin samfélagi inn í nágrannasamfélögin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert