Í hverri þrengingu eru tækifæri

SmartMedia hefur opnað söluskrifstofu í Óðinsvéum og mun skrifstofan sjá um sölu og markaðssetningu á vörum og þjónustu SmartMedia í Danmörku. „Það þýðir ekkert að gefast upp og hlaupa í felur,“ segir Sæþór Orri Guðjónsson, framkvæmdastjóri SmartMedia.
 
Í ljósi aðstæðna á Íslandi ákváðu eigendur SmartMedia að leita að nýjum tækifærum innanlands og erlendis. Skoðun á mögulegum mörkuðum leiddi í ljós að danski markaðurinn væri góð byrjun og hefur SmartMedia nú þegar ráðið til sín 2 sölumenn til að sinna verköflun þar ytra. Starfsemi SmartMedia í Danmörku fer fram á vefslóðinni smartwebber.dk.

Í tilkynningu segir að fyrst um sinn verði lögð sérstök áhersla á SmartWebber light tilboð fyrirtækisins, sem er tilbúinn veflausn með val um 7 stöðluð vefsnið og fullkomnu vefumsjónarkerfi.
 
„Það vita allir hvernig staðan er á Íslandi í dag, en það þýðir ekkert að gefast upp og hlaupa í felur og því ákváðum við að spýta í lófann og sækja á nýja markaði, enda erum við með mjög svo samkeppnishæfa vöru til að fara með út fyrir landsteinana,“ segir Sæþór Orri Guðjónsson, framkvæmdastjóri SmartMedia.

Hann segir að SmartMedia muni sinna allri þjónustunni frá Vestmannaeyjum með það að markmiði að styrkja starfsemina þar enn frekar. Vonandi verði hægt að bæta við við starfsmönnun í eyjum, en í dag eru 5 manns starfandi hjá SmartMedia.

„Við munum að sjálfsögðu halda áfram að þjónusta okkar íslensku viðskiptavini vel og vinna að því að auka markaðshlutdeild okkar á Íslandi, en nokkur skref hafa verið tekinn í þá áttina. Má þar meðal annars nefna finnalén.is, sem færir okkur nær fleiri viðskiptavinum allstaðar á landinu. Á næstunni munum við frekar auka vöruframboð og þjónustu en að draga saman. Í hverri þrengingu eru tækifæri og við ætlum að finna þau og nýta,“ segir Sæþór Orri Guðjónsson, framkvæmdastjóri SmartMedia.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert