Ofnæmislost eftir pöntun

Brúða af þeirri gerð sem Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands hefur fest …
Brúða af þeirri gerð sem Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands hefur fest kaup á.

Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands þykir mikill fengur að nýjum sýndarsjúklingi, sem keyptur var með styrk úr Tækjakaupasjóð Háskólans. Um er að ræða tölvustýrða brúðu í mannsstærð sem líkir eftir viðbrögðum raunverulegs sjúklings, allt eftir því hvaða þætti á að þjálfa hverju sinni.

„Sjúklingurinn getur til dæmis farið í ofnæmislost, lungu hans geta fallið saman og hjartað stöðvast. Hægt er að stýra lungnahljóðum, púls og garnahljóðum, svo fátt eitt sé nefnt,“ að því er fram kemur í tilkynningu deildarinnar.

Þar segir:

„Hér er því á ferð fullkominn hermir fyrir kennslu í nákvæmu líkamsmati og öllum bráðaaðstæðum sem upp geta komið á heilbrigðisstofnunum og því gríðarlega mikilvægur áfangi í hjúkrunarfræðikennslu hér á landi sem og í kennslu annarra heilbrigðisvísindagreina.“

Segir þar jafnframt að hermirinn gefi nemendum tækifæri til að „byggja upp klíníska færni áður en þeir annast raunverulega sjúklinga“. Slíkt skapi „markvissari vinnubrögð þegar nemandinn þarf að takast á við raunverulegar aðstæður á sjúkradeildum og stuðlar að öryggi sjúklinga“.

Efnt var til samkeppni meðal nemenda og starfsmanna Háskóla Íslands um nafn á hinn nýja sjúkling. Alls bárust á fimmta hundrað tillögur en höfundur nafnsins sem deildarráð hjúkrunarfræðideildar valdi er Linda Dögg Hólm, nemandi við sálfræðideild.

Verður sýndarsjúklingnum gefið nafn við hátíðlega athöfn þriðjudaginn 2. desember kl. 10.00 í Eirbergi við Eiríksgötu 34. Þá gefst gestum og gangandi færi á að hitta þennan nýja og öfluga liðsmann deildarinnar, að því er segir í tilkynningu deildarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert