Risavaxið svarthol í Vetrarbrautinni

Svarthol verður til við þyngdarhrun stjörnu með kjarna sem er …
Svarthol verður til við þyngdarhrun stjörnu með kjarna sem er þyngri en þrír sólarmassar. Stjarnan hrynur saman og verður óendanlega lítil. Reuters

Rannsókn stjörnufræðinga, sem hefur staðið yfir undanfarin 16 ár, hefur nú staðfest að það er risavaxið svarthol í Vetrarbrautinni, sem er sú stjörnuþoka sem jörðin tilheyrir.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að þýskir stjörnufræðingar hafi komið sér fyrir í í evrópsku stjörnuathugunarstöðinni í Chile til að fylgjast með hreyfingum 28 stjarna sem ferðast í hring um miðju Vetrarbrautarinnar.

Niðurstöður vísindamannanna voru birtar í vísindaritinu The Astrophysical Journal og þar kemur fram að svartholið sé fjórum milljón sinnum þyngri en sólin.

Fram kemur á Vísindavefnum að talið sé að massamiklar stjörnur endi æviskeið sitt sem svarthol. Svarthol verði til þegar kjarnar stjarnanna falli saman undan eigin massa. Kjarninn falli saman þangað til hann sé orðinn geysilega þéttur og allur massinn sé saman kominn á örlitlu svæði. Umhverfis það sé þyngdarsviðið svo sterkt að ekkert sleppur í burtu, ekki einu sinni ljós.

Að sögn dr. Robert Massey, hjá konunglega stjörnufræðifélaginu, benda niðurstöðurnar til þess að vetrarbrautir myndist í kringum risavaxin svarthol á svipaðan hátt og perla myndast í kringum grófan sandstein.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert