Heilinn vegur þungt í offitu

Kári Stefánsson
Kári Stefánsson mbl.is/Þorkell

Niðurstöður nýrrar, umfangsmikillar rannsóknar sem leidd var af DeCode voru tilkynntar í dag. Alls voru 30.000 manns á Íslandi, í Hollandi og Bandaríkjunum í úrtaki og leiddi rannsóknin til kortlagningar sex áður óþekktra genastökkbreytinga sem tengjast offitu. Genabreytingarnar gefa til kynna hvernig heilinn og taugakerfið stjórna áti og efnaskiptum í líkamanum.

„Með þessari rannsókn tvöfaldast í einni svipan fjöldi þekktra og afritaðra erfðaþátta sem valda því að offita er heilsufarsvandamál,“ hefur Reuters fréttastofan eftir Kára Stefánssyni, forstjóra DeCode, sem leiddi alþjóðlegt teymi vísindamanna við rannsóknina, í samvinnu við alþjóðleg erfðafræðirannsóknarstofur, þ.á.m. The National Human Genome Research Institute í Bandaríkjunum. Niðurstöður rannsóknarinnar eru reifaðar í grein í vefritinu Nature Genetics í dag.

Samkvæmt niðurstöðunum hafa a.m.k. sex gen í líkamanum sterk tengsl við hlutfallið milli hæðar og þyngdar, s.k. þyngdarstuðul (e. body mass index, BMI). Í viðtali við Reuters segir Kári að eitt það athyglisverðasta við niðurstöðurnar sé að flestir hinna nýju áhættuþátta séu nærri erfðavísum  sem stjórni úrvinnslu í heilanum. Fram kemur að DeCode vonist til að geta selt genarannsóknir sem byggi á uppgötvunum sem þessari.

„Þetta sýnir að þegar við vinnum að því að þróa betri aðferðir við að berjast gegn offitusjúkdómnum, þar á meðal með því að nota þessar rannsóknir sem fyrsta skrefið í átt að því að þróa ný lyf, þá verðum við líka að leggja að minnst kosti jafnmikla áherslu á það að ná stjórn yfir matarlyst, eins og við leggjum á það hvernig líkaminn vinnur úr og geymir orku með efnaskiptum,“ segir Kári.

Miklir möguleikar á Íslandi

Dr. Eric Green, sem einnig tók þátt í rannsókninni tekur undir með Kára. „Við vitum að umhverfisþættir, svo sem mataræði, hafa ýmislegt um offitu að segja, en þessi rannsókn færir okkur enn frekari sannanir fyrir því að erfðafræðileg tilbrigði leika einnig lykilhlutverk í tilhneigingu hvers einstaklings til að verða offitu að bráð.“

Í grein Nature Genetics tekur Kári það einnig fram að niðurstöður rannsóknarinnar undirstriki möguleikana sem felist í þekkingunni og mannauðnum á Íslandi. Þannig geti Ísland verið hornsteinn víðtækra, alþjóðlegra samstarfsverkefna til að bera kennsl á og afrita arfgenga genagalla sem valdi flóknum svipgerðum. „Þessi nýju afbrigði gætu opnað leiðir á framleiðslu nýrra lyfja og við höfum þegar tekið það upp innan deCode. Við hlökkum til að færa út kvíarnar í samvinnu okkar við kollega í Bandaríjkunum og Evrópu, til að halda áfram á þekkingarbrautinni í átt að skilningi á líffræðinni að baki offitu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka