Síðustu 12 mánuðir hafa verið kaldari en árin a undan, en til lengri tíma litið sést samt að hitastig á jörðinni fer enn hækkandi samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO). „Þetta er sennilega tíunda heitasta árið ef litið er til meðalhitastigs á heimsvísu,“ segir Michael Jarraud, forstjóri WMO.
„Þróunin í átt að hærra hitastigi á jörðu er samt enn til staðar,“ bætti hann við og benti á að öll þau ár sem mælst hafa heitari en árið 2008 hafi verið á tímabilinu eftir 1996. Orsakir kólnunarinnar í ár megi rekja til hafstraumsins La Niña sem varð mjög sterkur upp úr síðari hluta árs 2007.
Áhrif El Niño og La Niña hafstraumanna, sem hita og kæla Kyrrahafið, finnast víða um heim. Til þeirra hefur verið rakinn uppruni langvinnra þurrka í Ástralíu, flóða í Afríku og Bólivíu og sterkra hitabeltisstorma í Suður-Asíu árin 2006-2007.
Að sögn Jarraud verður sennilega nokkurt jafnvægi milli hafstraumanna tveggja árið 2009 og ættu þeir því ekki að hafa teljandi áhrif á loftslagið á næsta ári. Hann lýsti hinsvegar yfir áhyggjum sínum á því að ísbreiðurnar á suðurhveli hafi aðeins einu sinni áður verið jafnlitlar síðan mælingar hófust árið 1979.
Þá settu öfgar í veðurfari svip sinn á árið sem er að líða, þar á meðal flóð, viðvarandi þurrkar, bylir, hita- og kuldabylgjur.
Ennþá er of snemmt að sögn Jarrauds að gefa út spár fyrir árið 2009 en samkvæmt nýjustu skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna mun hitastig jarðar hækka um 0,2% næsta áratuginn.