Engin tengsl sögð vera á milli geimgeisla og loftlagsbreytinga

Ekki virðist vera samhengi á milli geimgeisla og skýjamyndunar.
Ekki virðist vera samhengi á milli geimgeisla og skýjamyndunar. AP

Breytingar á geislum utan úr geimnum hafa líklega ekki áhrif á loftlagsbreytingar á jörðinni. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem Íslendingar unnu m.a. að, sem er sögð styðja fyrri rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessu sviði. 

Á vef CICERO, sem er miðstöð alþjóðlegrar veðurfræði- og umhverfisrannsókna í Ósló, er haft er eftir Jóni Agli Kristjánssyni, sem er prófessor í veðurfræði við Óslóarháskóla, og vann jafnframt að rannsókninni, að ekki virðist vera samhengi á milli geimgeisla og skýjamyndunar, þ.e. færri geislar dragi úr slíkri myndun.  

Fram kemur á vef CICERO að því sé stundum haldið fram að svokallaðir geimgeislar geti átt þátt í hlýnun jarðar. Í rannsókninni voru áhrif geilsanna á ský rannsökuð. Niðurstaðan er sú að það sé afar ólíklegt að geislarnir geti haft áhrif á hlýnun jarðar.  

Þá segir að það ríki ákveðin vísindaleg óvissa um geimgeisla og myndun skýja. Sumir vísindamenn haldi því fram að dregið hafi úr tíðni geislanna undafarinn áratug og að það valdi hlýnun jarðar. Tilgátan er sögð vera sú að færri geislar séu þess valdandi að skýjadropar séu bæði færri og minni. Þetta valdi gróðurhúsaáhrifum þar sem droparnir endurkasti minna af geislum sólarinnar aftur út í geim. Þeir sem aðhyllast þessa tilgátu eiga hins vegar sér fáa stuðningsmenn.  

Jón Egill segir að niðurstöðurnar séu í takt við aðrar rannsóknir á þessu sviði. Hann segist ekki vita til þess að nokkur rannsókn hafi sýnt fram á þessi tengsl milli geislanna og skýjamyndunarinnar.  

Þá bendir Jón Egill einnig á að flestar vísindarannsóknir á þessu sviði hafi sýnt fram á að geimgeislum hafi ekki farið fækkandi undanfarna áratugi. Það sé því afar hæpið að þessi tilgáta sé notuð til að skýra þær loftlagsbreytingar sem hafi átt sér stað á jörðinni. 

Rannsóknin var nýverið birt í vísindaritinu Atmospheric Chemistry and Physics. Hópur vísindamanna frá Háskólanum í Ósló, Norsku loftlagsstofnuninni, CICERO og frá Háskóla Íslands unnu að rannsókninni.

Greinin á vef CICERO.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert