Ný tegund drápssnigils hefur nú skotið upp kollinum í Vestur-Evrópu, nánar tiltekið í Wales í Bretlandi. Er hann kjötæta, með beittar tennur, blindur og líkfölur á skrokkinn og hefur hlotið nafnið Draugasnigill í máli almennings. Latneska heitið er Selenochlamys ysbryda en ysbryda er velska orðið yfir draug.
Kvikindið er á ferli á nóttunni, að sögn Jyllandsposten og étur ánamaðka. Ekki er þess getið hvort snigillinn leggst á stærri dýr en líklega er hann of svifaseinn fyrir þau flest. Talið er að sá sem fannst hafi komist til Wales sem laumufarþegi í blómapotti.