Ritstjórar vísindatímaritsins Nature völdu grein eftir íslenskan vísindamann bestu grein ársins í taugavísindum. Dr. Ragnhildur Káradóttir vinnur áfram að rannsóknum sem hún byggði grein sína á, nú á eigin rannsóknastofu í taugavísindum við University of Cambridge í Englandi.
Ragnhildur er doktor í taugavísindum frá University College London þar sem hún vann að rannsóknum sínum. Hún og samstarfsfólk hennar hefur fengið birtar tvær greinar í vísindatímaritinu Nature, þá fyrri 2005, og sú nýrri birtist í Nature neuroscience í janúar sl.
„Ég hef allan tímann verið að rannsaka svokallaðar stoðfrumur, það er að segja frumur sem samkvæmt kennisetningum taugavísindanna hafa það hlutverk að hjálpa taugafrumum að senda taugaboð. Þessi kenning um heilann varð til á nítjándu öld en málið er ekki svona einfalt því við höfum sýnt fram á það að ein tegund stoðfrumna, að minnsta kosti, getur sent taugaboð og líka tekið við skilaboðum frá taugunum,“ segir Ragnhildur. Hún er nú heima í jólafríi en hún gekk einmitt frá greininni í Nature þegar hún var hér heima um jól og áramót í fyrra.
Ragnhildur telur að það hafi vakið athygli á hennar grein og hjálpað til við val á henni sem uppgötvun ársins að sýnt hafi verið fram á að ein kennisetningin sem taugavísindin hafa verið grundvölluð á sé brostin.