Getur golf valdið heyrnarskaða?

Reuters

Læknar hafa varað við því að golf geti valdið heyrnarskaða. Þeir hvetja golfara sem nota nýja tegund af kylfum sem eru með þunnan höggflöt úr títaníum, sem eykur vegalengdina sem golfkúla getur ferðast, að nota eyrnatappa.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að eyrnasérfræðinga gruni að hvellurinn sem heyrist þegar kylfan hæfir kúluna hafi skaðað heyrina hjá 55 ára gömlum golfara, sem nýlega leitaði sér læknisaðstoðar.

Greint er frá þessu í vísindaritinu British Medical Journal.

Maðurinn sem um ræðir lék golf þrisvar í viku í eitt og hálf ár með King Cobra LD kylfur úr títaníum. Hann sagði við lækna að hljóðið sem heyrðist þegar hann sló kúluna væri ekki ósvipað byssuskoti.

Hann ákvað á endanum að hætta að nota kylfurnar, en þá hafði hann þegar orðið fyrir heyrnarskaða.

Læknar við háskólasjúkrahúsin í Norfolk og Norwich gerðu nokkrar rannsóknir á manninum. Hann var með suð í eyrunum auk þess sem hann hafði misst heyrn á hægra eyra.

Niðurstöður læknanna leiddu í ljós að vandi mannsins var svipaður og hjá þeim sem hafa verið í miklum hávaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert