Stofnunin sem rekur frjálsa alfræðiritið Wikipedia á netinu hefur með söfnun frjálsra framlaga náð því takmarki sínu að safna 6 milljónum dala, um 730 milljónum kr., á yfirstandandi fjárhagsári sem lýkur í júní á þessu ári.
Fjármunirnir tóku að streyma inn eftir að stofnandi vefsetursins, Jimmy Wales, birti þar ákall til velunnara seinni hluta desembermánaðar um að styðja við bakið á alfræðiritinu.
Wikimedia stofnunin er rekin fyrir frjáls framlög og segir að 50 þúsund framlög að upphæð um 2 milljónir dala hafi borist á átta dögum eftir að ákallið birtist og þar með séu gefendur orðnir rösklega 125 þúsund með heildarframlög upp á 6,2 milljónir dala.
Á vefsíðu The Times þykir þetta vel að verki staðið og gefa til kynna að framtíð alfræðiritsins sé tryggð þrátt fyrir alla úrtölumenn og tíða gagnrýni á ónámkvæmni í upplýsingunum sem í ritinu birtast. Vefsetur Wikipedia er eitt hið fjölsóttasta á netinu.
Fjármunirnir sem safnast hafa munu renna til að bæta hugbúnaðinn sem Wikipedia er keyrð á svo og að endurnýja netþjóna hennar og til að auka bandvíddina til að mæta stöðugt vaxandi umferð. Stofnunin rekur vefsetrið án allra auglýsinga og því eru frjáls framlög starfseminni lífsnauðsynleg.
Frá stofnun Wikipedia árið 2001 hafa stakkaskipti orðið í fráöflun hennar. Stofnunin fékk 1,3 milljónir dala með framlögum fyrir tveimur árum (áður hafði hún eingöngu verið rekin af sjálfboðaliðum) og 2,2 milljónir dala á síðasta ári. Í mars á síðasta ári fékk vefsetrið 3 milljónir að gjöf frá Alferd P. Sloan stofnuninni og greiðist 1 milljón dala á ári á næstu þremur árum.
Talsmaður Wikipedia-stofnunarinnar, Jay Walsh, segir að megin markmiðið á árinu verið að efla akademíu hennar enn frekar. Starfsmenn hennar verði þá sendir til stofnana og háskóla um allan heim til viðræðna við sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum, að hluta til í von um að draga fræðimenn og sérfræðinga háskólanna enn frekar að uppbyggingu á alfræðiritinu.
Í þakkarbréfi til gefenda sagði Jimmy Wales: „Þið hafið sýnt í verki að Wikipedia skiptir ykkur máli og að þið styðjið keppikeflið okkar: að færa heiminum frjálsa þekkingu án gjaldtöku og án auglýsinga.“