Fólki, sem sefur minna en í sjö klukkustundir á nóttu, er þrisvar sinnum hættara við því að fá kvef en þeir sem sofa í átta klukkustundir eða lengur, ef marka má nýja rannsókn.
Rannsóknarmenn við Carnegie Mellon-háskóla í Pennsylvaníu rannsökuðu svefnvenjur 153 manna í tvær vikur og settu dropa með veiru, sem veldur kvefi, í nef þeirra.
„Niðurstaðan var að því minna sem fólkið svaf því meiri voru líkurnar á því að það fengi kvef,“ segir í grein um rannsóknina í læknablaðinu Archives of Internal Medicine. Þeir sem náðu ekki djúpum svefni voru einnig líklegri til að fá kvef.
Þeir sem tóku þátt í rannsókninni voru allir við góða heilsu (þar til þeir fengu flensu) og meðalaldur þeirra var 37 ár.