Það var um lítið annað rætt á MIDEM-tónlistarkaupstefnunni sem lauk í vikunni í Frakklandi en þá staðreynd að tónlistariðnaðurinn er búinn að gefast upp gegn þeim aðferðum er hingað til hafa verið nýttar til þess að sporna gegn afritun og ólöglegri dreifingu tónverka á netinu.
Þetta sýnir sig í því að stærstu útgáfufyrirtækin og dreifingaraðilar á netinu (svo sem EMI, Warner og iTunes) hafa nú ákveðið að fjarlægja DRM-kóða (Digital Rights Management) af seldum stökum lögum í gegnum netið og geisladiskum, en kóðinn gerði kaupandanum erfiðara fyrir að afrita þá tónlist er hann keypti sér á diskum eða í stafrænu formi á netinu.
Einnig hefur sú ákvörðun samtaka plötuútgefenda í Bandaríkjunum (Recording Industry Association of America) að hætta að lögsækja þá er nýta sér ólöglega dreifingu á netinu vakið mikla athygli. Sú ákvörðun var tekin þegar þær 35 þúsund lögsóknir sem stofnað hefur verið til frá 2003 á hendur þeim er hafa dreift tónlist með svokallaðri deilitækni (peer-to-peer) reyndust skila litlum sem engum árangri öðrum en þeim að mæta hörðum mótmælum neytenda.
Ein af þeim leiðum sem talað hefur verið um að fara er að útgáfufyrirtækin gangi í samstarf við netþjónustufyrirtæki (s.s. Símann, Vodafone og Tal hér á landi) um að fylgst verði sérstaklega með ólöglegri drefingu á netinu og gerist tiltekinn netnotandi sekur um slíkt verði honum send viðvörun. Haldi hann hins vegar uppteknum hætti eftir þrjár aðvaranir lokar netþjónninn á endanum á nettengingu kúnnans.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.