Þegar Barack Obama er ekið um götur Washington-borgar dugar engin venjuleg glæsibifreið og nýi forsetinn hefur því fengið sérsmíðaðan brynvarinn kadilják sem á að geta varið hann gegn hugsanlegum banatilræðum. Í bílnum eru einnig vopn og tæki til að lífverðir forsetans geti gert gagnárás.
Forsetabíllinn þykir ekki mikið augnayndi, enda þurfti fegurðin að víkja fyrir örygginu. General Motors smíðaði bílinn í samræmi við tilmæli Leyniþjónustunnar, sem gegnir því hlutverki að vernda forsetann. Útkoman er blendingur kadiljáks og bryndreka sem fengið hefur viðurnefnið „Skepnan“. Eitt bandarísku blaðanna lýsti bílnum sem flugskeytabyrgi á hjólum.
Yfirvöld hafa ekki viljað veita upplýsingar um bílinn og öryggisbúnaðurinn er ríkisleyndarmál. Þó hefur spurst út að bíllinn sé með 13 sm þykkt skothelt gler, 20 sm þykkar brynvarðar hurðir og undir bílnum sé 12 sm þykk stálbrynja sem sögð er þola meiri sprengingu en margir skriðdrekar, að sögn U.S. News & World Reports.
Skepnan á m.a. að geta varið forsetann gegn gasárás, litlum flugskeytum og riffilkúlum sem skotið er af stuttu færi. Bíllinn er algerlega loftþéttur, þannig að forsetanum ætti ekki að stafa hætta af hugsanlegri efna- eða sýklaárás. Í bílnum er einnig búnaður sem býr til loft, þannig að ekki er þörf á fersku lofti að utan, að sögn bílablaðsins Mobile Magazine.